Innlent

Ekkert samkomulag í sjónmáli í flugmannadeilu

Ekkert samkomulag er í sjónmáli í kjaradeilu flugmanna og Icelandair þrátt fyrir stíf fundarhöld í gær. Örlítil seinkun varð áætlunarflugi Icelandair í morgun en ekki stendur til að fella niður nein flug í dag.

Deiluaðilar funduðu frá klukkan eitt til klukkan ellefu í gærkvöldi en fundur hófst á ný í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan ellefu í morgun.Hafsteinn Pálsson, formaður félags íslenskra atvinnuflugmanna, sagði í samtali við fréttastofu fyrir fundinn í morgun að það væri jákvætt að menn væru að tala saman og sagði ennfremur að allir væru að vilja gerðir til að leysa deiluna. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um stöðu mála.

Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun en Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríksiráðherra, hefur ekki útilokað að setja lög á verkfallsaðgerðir flugmana.

Aðilar innan ferðaþjónstunnar hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mála og óttast að áframhaldandi verkfallsaðgerðir muni draga úr komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, sagði í Bylgjufréttum í gær að bílaleigufyrirtæki væru byrjuð að afpanta nýja bíla vegna málsins. Örlítil seinkun varð áætlunarflugi Icelandair frá Keflavík í morgun.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair sagði í samtali við fréttastofu að ekki standi til að fella niður flug í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×