Erlent

Atkvæðagreiðslan „ómarktæk með öllu“

Bjarki Ármannsson skrifar
Utanríkisráðherrar Þýskalands og Bretlands á fundi um mál Úkraínu í gær.
Utanríkisráðherrar Þýskalands og Bretlands á fundi um mál Úkraínu í gær. Vísir/AFP
Yfirvöld í Úkraínu og á Vesturlöndum fordæma þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fór fram í austurhluta landsins í gær. Aðskilnaðarsinnar í héruðunum Donetsk og Luhansk segja að yfirgnæfandi meirihluti hafi kosið með því að svæðið fái að stjórna sér sjálft.

Líkt og greint var frá í gær, var aðeins ein spurning á kjörseðlum, á rússnesku og úkraínsku. Hún er einfaldlega: „Styður þú sjálfsstjórnun Þjóðarlýðveldisins Donetsk / Þjóðarlýðveldisins Luhansk?“Samkvæmt skipuleggjendum kosninganna svöruðu 89 prósent íbúa í Donetsk og 96 prósent íbúa í Luhansk játandi. 

Samkvæmt fréttastofu BBC var skipulagningu og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar í meira lagi ábótavant. Fréttamenn á staðnum greindu frá því að engin kjörskrá væri til staðar og kjósendur hafi komist upp með að greiða atkvæði oftar en einu sinni. Þá hafi aðeins örfáir kjörstaðir  verið settir upp í borginni Mariupol, þar sem um hálf milljón manna býr.

Fregnir bárust af því að einhverjir hefðu látið lífið í bænum Krasnoarmeisk í Donetsk-héraði þegar sérsveitarmenn frá Úkraínustjórn tóku að skjóta á fólk sem hafði safnast saman til að kjósa fyrir utan ráðhúsið í bænum. Þá kom til átaka í borginni Slavjansk í fyrrinótt, þar sem stjórnarherinn skiptist á skotum við uppreisnarmenn.

Til stendur að halda aðra atkvæðagreiðslu eftir viku, þar sem íbúar fá að kjósa um það hvort héröðin tvö eigi að sameinast Rússlandi, en fjölmargir íbúar svæðisins tala rússnesku eða eru af rússneskum ættum.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa kallað atkvæðagreiðsluna „farsa“ og segja að hún eigi sér engan lagalegan grundvöll. Sömuleiðis sagði William Hague, utanríkisráðherra Breta, í dag að atkvæðagreiðslan sé „ómarktæk með öllu.“ Hann bætti því við að Evrópusambandið gæti beitt Rússlandi fleiri viðskiptaþvingunum ef yfirvöld þar í landi reyna að trufla fyrirhugaða forsetakosningu í Úkraínu þann 26. maí.

Rússnesk stjórnvöld hafa aftur á móti lýst því yfir að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar sýni „vilja fólksins“ og að hrinda eigi þeim í verk án frekari blóðsúthellinga.


Tengdar fréttir

Vilja innlima fleiri héruð í Rússland

200 mótmælendur, hliðhollir Rússum, brutust inn í stjórnsýslubyggingu í borginni Donetsk í Austurhluta Úkraínu. Þeir krefjast þess atkvæðagreiðslu um sameiningu við Rússland.

Umdeild atkvæðagreiðsla í Úkraínu

Aðskilnaðarsinnar í Donetsk og Luhansk standa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Austur-Úkraína eigi að fá að stjórna sér sjálf.

Átök fara harðnandi í Úkraínu

Þrír eru látnir og að minnsta kosti þrettán særðir eftir átök aðskilnaðarsinna og úkraínskra hermanna í hafnarborginni Mariupol í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×