Innlent

Grænfriðungar hangandi í böndum utan á borpalli

Kristján Már Unnarsson skrifar
Liðsmenn Greenpeace-samtakanna hafa hlekkjað sig við olíuborpall Statoil í Barentshafi til að mótmæla olíuleit á norðurslóðum. Varðskip norsku strandgæslunnar er komið á vettvang.

Borpallurinn var á siglingu og átti skammt eftir að fyrirhuguðum borstað. Hann er um 350 kílómetra norðan við Noreg en aldrei fyrr hafa olíuboranir verið skipulagðar svo langt inni á heimsskautinu. Skip Greenpeace, Esperanza, fylgdi borpallinum eftir, og snemma í morgun réðust fimmtán grænfriðungar til uppgöngu, hengdu mótmælaborða utan á pallinn og hlekkjuðu sig við hann. Þeir hafa í dag neitað að yfirgefa pallinn.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld mátti sjá myndir af aðgerðunum þar sem Grænfriðungar héngu í böndum utan á risastórum borpallinum. Statoil segir aðgerðirnar ábyrgðarlausar og ólöglegar. Norska strandgæslan er á vettvangi en varðskipsmenn hafa ekkert aðhafst.

Þess er skemmst að minnast að þegar Greenpeace-menn gripu til svipaðra aðgerða gegn rússneskum borpalli í Barentshafi í haust voru þeir handteknir og máttu þola margra mánaða varðhald í rússnesku fangelsi.



Tengdar fréttir

Rússar handtóku meðlimi Greenpeace

Vopnaðir rússneskir strandgæsluliðar réðust í gærkvöldi um borð í skip Greenpeace-samtakanna, Arcit Sunrise, sem var að hringsóla við olíuborpall á vegum Gazprom í suðaustanverðu Barentshafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×