Fótbolti

Larsson gæti yfirgefið Halldór Orra og þjálfað Hólmbert

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Henrik Larsson átti góða tíma í Skotlandi.
Henrik Larsson átti góða tíma í Skotlandi. Vísir/getty
Skoskir miðlar halda því fram að Neil Lennon, knattspyrnustjóri Skotlandsmeistara Celtic, láti af störfum í sumar eftir að vinna enn einn titilinn þar í landi.

Ennfremur er talið að Svíinn HenrikLarsson, fyrrverandi leikmaður liðsins, sé maðurinn sem Celtic vill að taki við af Lennon. Fari svo verður Larsson nýr stjóri Hólmberts Arons Friðjónssonar sem gekk í raðir félagsins síðasta vetur.

Larsson lék í sjö ár með Celtic og skoraði 242 mörk í 313 leikjum í öllum keppnum en hann er goðsögn í lifanda lífi hjá stuðningsmönnum liðsins.

Hann hefur, eftir að fótboltaferlinum lauk, þjálfað Landskrona í þrjú ár og nú nýliða Falkenbergs í sænsku úrvalsdeildinni en með liðinu leikur Stjörnumaðurinn Halldór Orri Björnsson.

„Það hefur enginn rætt við okkur frá Celtic. Það eru kannski orðrómar í gangi í Skotlandi en enginn er að tala um þetta í Svíþjóð. Ég tala við Henrik á hverjum degi en við höfum aldrei rætt um starfið hjá Celtic,“ segir Håkan Nilsson, íþróttastjóri Falkenbergs, við Daily Record.

„Það eru félög sem hafa áhuga á Henrik en engar fyrirspurnir hafa borist frá Skotlandi. Hann er samningsbundinn Falkenbergs og það eina sem við ræðum þessa dagana er hvað við ætlum að gera á þessu tímabili.“

Uppfært 10.55:

Neil Lennon hefur sagt starfi sínu lausu hjá Celtic en hann er sagður horfa til ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×