Erlent

Norska strandgæslan tók skip Greenpeace

Kristján Már Unnarsson skrifar
Varðskipið togar skip Greenpeace burt frá borpallinum í nótt.
Varðskipið togar skip Greenpeace burt frá borpallinum í nótt. Mynd/Greenpeace.
Varðskip norsku strandgæslunnar dró í nótt skip Greenpeace, Esperanza, burt af fyrirhuguðum borstað Statoil í Barentshafi, um 350 kílómetra norðan við Noreg. Samtökin höfðu haldið skipi sínu undanfarna sólarhringa nákvæmlega á þeim punkti til að hindra borpallinn Transocean Spitsbergen í að hefja boranir. 

Norskir varðskipsmenn fóru seint í gærkvöldi um borð í skip Greenpeace og festu dráttartaug á milli. Esperanza var svo fjarlægt á þeirri forsendu að það hefði brotið gegn fyrirmælum norskra stjórnvalda um að nánasta umhverfi borpalls teljist öryggissvæði. Greenpeace mótmælti aðgerðinni sem ólöglegri og sagði að brotið hefði verið gegn siglingafrelsi á alþjóðlegu hafsvæði. 

Statoil hafði gefið það út að hver dagur sem boranir tefðust kostaði félagið um 140 milljónir íslenskra króna. Greenpeace fagnaði því hins vegar að hafa tekist að tefja boranir um að minnsta kosti 89 klukkustundir. 

Laust fyrir hádegi bárust þær fréttir frá Greenpeace að strandgæslan hefði sleppt skipinu og að það myndi nú sigla til Tromsö til að sækja þá meðlimi samtakanna sem handteknir voru á borpallinum fyrr í vikunni.


Tengdar fréttir

Lögregla handtók Grænfriðungana

Norska lögreglan fór í nótt um borð í borpallinn Transocean Spitsbergen í Barentshafi og batt enda á mótmæli Greenpeace.

Herferð Greenpeace gæti beinst gegn Drekasvæðinu

Alþjóðleg barátta Greenpeace gegn olíuleit á Norðurslóðum gæti beinst gegn áformum Íslendinga á Drekasvæðinu. Í frétt á Vísi í gær kom fram að Bítillinn Paul McCartney er í hópi heimsfrægra stjarna sem ætla að styðja herferð Grænfriðunga. Svæðið sem íslensk stjórnvöld hafa boðið út á Jan Mayen-hryggnum til olíuleitar og vinnslu er allt norðan heimsskautsbaugs og telst því hluti af Norðurslóðum, eins og þær eru almennt skilgreindar.

Statoil borar nyrstu brunna Norðurslóða

Tvær holur sem norska ríkisolíufélagið Statoil borar í vor í Barentshafi á svokölluðu Hoop-svæði, um 350 kílómetra norðan Hammerfest, verða nyrstu olíubrunnar á jörðinni til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×