Innlent

Lítur málið alvarlegum augum

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari segist líta það alvarlegum augum að mistök hafi verið gerð þegar upptökum af símtölum milli verjenda og sakborninga var ekki fargað í málum hjá embættinu.

Trúnaðarsamband verjenda og sakborninga er heilagt og lögreglu er óheimilt að hlusta á samtöl milli þeirra. Þetta trúnaðarsamband er forsenda þess að hinn ákærði njóti raunhæfrar varnar.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Ímon-málinu er því slegið föstu að sérstakur saksóknari hafi brotið lög þegar símtöl verjenda og sakborninga voru hleruð og upptökum ekki fargað. En þetta gerðist í fleiri málum. Þannig komst verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar í Al-Thani málinu að því fyrir tilviljun að samtöl þeirra hefðu verið hleruð.

„Í raun er það þannig að þegar hlustun er sett upp þá fær embættið upplýsingar um símtalið þegar símtalinu er lokið,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

„Síðan þegar farið er yfir þessi símtöl og hlustað hefur verið á þau, þá er það verklag viðhaft að merkja alveg sérstaklega við símtöl sem verjendur eiga við skjólstæðinga sína, merkt til eyðingar. Það virðist hafa farið fyrir í þessu máli.“

Ólafur segir að alvarleg mistök hafi átt sér stað þegar símtöl milli verjenda og sakbornings voru hleruð í nokkrum málum.

Ólafur Þór segir að endurskoða þurfi verklag í samræmi við athugasemdir frá embætti ríkissaksóknara. Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt að fyrirbyggja mistökin með því að koma sér upp tækni sem síar út þessi símtöl segir Ólafur Þór að fara þurfi yfir það.

Þess skal getið að engin símtöl hafa verið hleruð í þágu rannsókna hjá sérstökum saksóknara frá ársbyrjun 2013. Til stendur að embættið starfi út þetta ár áður en það verður lagt niður eða eðli þess breytt í embætti saksóknara efnahagsbrota, samkvæmt skýrslu innanríkisráðherra sem kom út í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×