Íslenski boltinn

Tók við liðinu í fallsæti og skila því af mér í fallsæti

Daníel Rúnarsson á Kópavogsvelli skrifar
Ólafur kvaddi í kvöld. Hann er hér á hliðarlínunni í sínum síðasta leik með Blika.
Ólafur kvaddi í kvöld. Hann er hér á hliðarlínunni í sínum síðasta leik með Blika. vísir/stefán
Kveðjuleikur Ólafs Kristjánssonar með Breiðabliksliðið fór ekki eins vel og hann hefði vafalaust óskað. En var tilfinningaþrungin stund inni í klefa að leik loknum?

„Ekki beint þrungin. Margir hlutir í lífinu eru meira tilfinningaþrungnir en þetta, en þetta kemur þó við viðkvæmar sálir, eins og ég er. Nú er maður svona að átta sig á því að þessu tímabili er lokið. "

En hvað fannst Ólafi um leikinn í kvöld?

„Ég er hundfúll með að hafa ekki náð að skila sigri og fleiri stigum. Mér fannst menn vera að reyna. Fyrri hálfleikur einkenndist af því að við erum lið sem er búið að vera í vandræðum í upphafi móts, ákveðin vandræði á okkur. En ég er ánægður með að við komum til baka eftir að hafa lent undir. Það er það sem ég hef viljað sjá og vil sjá í framtíðinni hjá Breiðabliksliðinu, að gefast aldrei upp. Ég er sannfærður um að ef menn hafa það hugarfar þá munu fleiri stig koma í hús."

Fjögur stig eftir sex leiki er rýr uppskera hjá Breiðablik. Hvað hefur helst vantað í leik liðsins?

„Það hefur helst vantað upp á bæði að skapa færi og svo nýta þau færi sem hafa gefist. En oft hefur bara vantað herslumuninn uppá til að hala inn fleiri stig."

„Ég tók við liðinu í fallsæti á sínum tíma og skila því af mér í fallsæti, þannig að hringnum er lokað. En auðvitað er það hundfúlt að vera ekki með fleiri stig. Það er enginn svekktari með það en ég og ég ber fulla ábyrgð á því - eins og velgengninni þegar hún kom."

Ólafur samdi við FC Nordsjælland fyrir tímabilið en stýrði liðinu samt sem áður í fyrstu sex leikjunum í deildinni. Hafði það áhrif að hans mati og vildi hann hætta fyrr?

„Ég hafði ekkert val um það. Ég er með samning og ég uppfylli bara mínar skyldur með glöðu gleði. En ef þú spyrð mig þá tengist gengi liðsins ekkert því að ég sé að fara út. Ef þú spyrð mig þá tengist þetta [gengi liðsins] ekkert því að ég sé að fara út. Ef liðið hefði verið með fjögur stig og ég ekki með liðið þessa sex leiki og Gummi hefði staðið hérna þá hefði spurningin sennilega verið hvort það hefði ekki verið rangt að hann hafi tekið við liðinu strax."

Guðmundur Benediktsson tekur nú við Breiðabliksliðinu. Hvaða möguleika telur Ólafur liðið eiga það sem eftir lifir tímabils?

„Liðið á hellings möguleika. Leiðin getur bara legið uppá við. Fallsæti í byrjun júní þarf ekki að þýða fallsæti í lok móts. Það býr mikið í liðinu og það verður spennandi að sjá Guðmund glíma við verkefnið sem er framundan."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×