Fótbolti

Alfreð: Heerenveen búið að hafna tveimur tilboðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. vísir/getty
Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, upplýsti í HM-messunni á Stöð 2 Sport 2 í kvöld að Heerenveen væri búið að hafna tveimur tilboðum í hann eftir að tímabilinu lauk en það á nú í viðræðum við annað félag sem vill kaupa markahrókinn.

„Eins og staðan er núna þá fer ég bara út til Hollands og æfi með mínu liði þar,“ sagði Alfreð aðspurður um stöðu mála hjá sér.

Alfreð var sagður um daginn vera búinn að komast að samkomulagi um kaup og kjör við spænska liðið Real Sociedad og gríska liðið Olympiakos þar áður.

„Það var líka frétt um daginn að ég væri búinn að skrifa undir á Ítalíu. Um leið og ég fæ skilaboð frá mínu félagi um að það hafi komist að samkomulagi þá fer ég í viðræður við viðkomandi félag en það hefur ekki gerst enn,“ asgði Alfreð.

„Þeir hafa hafnað tveimur tilboðum en það eru viðræður í gangi núna. Það er alltaf eitthvað að gerast,“ bætti hann við.

Aðspurður um hnémeiðslin sem hann varð fyrir undir lok tímabilsins sem öftruðu honum frá þáttöku í landsleikjunum gegn Austurríki og Eistlandi sagði Alfreð:

„Ég er allur að koma til. Þetta voru leiðinleg meiðsli en ég hef verið að vinna í þeim í fríinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×