Fótbolti

Hólmbert: Þarf að sanna mig upp á nýtt

Hólmbert Aron Friðjónsson.
Hólmbert Aron Friðjónsson.
Hólmbert Aron Friðjónsson er ekki í leikmannahópi Celtic sem mætir KR á morgun. Hann kom þar af leiðandi ekki með liðinu til Íslands.

"Auðvitað eru þetta vonbrigði. Það hefði auðvitað verið sérstaklega gaman að fara til Íslands með Celtic," segir Hólmbert Aron í samtali við íþróttadeild.

Nýr þjálfari tók við liðinu á dögunum en það er Norðmaðurinn Ronny Deila. Leikurinn gegn KR verður hans fyrsti leikur með liðið.

"Ég þarf að sanna mig upp á nýtt. Það er alltaf erfitt þegar það kemur nýr þjálfari og maður þarf að sanna sig upp á nýtt. Þjálfarinn sem keypti mig er ekki lengur til staðar. Hann ætlar ekki að taka neina sénsa og notar því reynsluboltana gegn KR."

Þó svo Hólmbert sé ekki ofarlega á blaði hjá nýja þjálfaranum núna þá líður honum ekki eins og hann sé kominn út í kuldann.

"Nei, alls ekki. Það fer enginn út í kuldann á tveim vikum. Ég fæ nægan tíma til að sanna mig núna og verð að bíta í það súra epli að vera ekki með núna," segir Hólmbert og bætir við að það hafi ekkert verið rætt að lána hann annað.

"Ég er auðvitað bara búinn að vera í atvinnumennsku í sjö mánuði hjá stóru félagi. Þetta tekur allt tíma en að sjálfsögðu ef ekkert breytist þá gæti ég þurft að kíkja að komast á lán eða eitthvað álíka. Ég þarf að spila til að þroskast."

Hólmbert hefur ekki trú á því að KR nái að leggja Celtic á morgun.

"Ég held ekki að Celtic muni endilega vinna þetta auðveldlega en held að við tökum þetta kannski 2-0."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×