Fótbolti

Inzaghi: Vorum fínir fyrstu tíu mínúturnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pippo hefur margt að hugsa um.
Pippo hefur margt að hugsa um. vísir/getty
AC Milan hafnaði í áttunda sæti ítölsku A-deildarinnar á síðustu leiktíð, en það varð til þess að Hollendingurinn Clarence Seedorf hélt ekki starfi sínu sem þjálfari liðsins.

Önnu goðsögn hjá félaginu, framherjinn FilippoInzaghi, er tekinn við og ekki byrjar það gæfulega hjá honum. AC Milan tapaði, 3-0, í fyrsta leik ICC-æfingamótsins í Bandaríkjunum á móti Olympiacos og var svo rassskellt í gærkvöldi, 5-1, af Manchester City.

Milan-menn voru svakalega lélegir á móti grísku meisturunum og fengu svo á sig fjögur mörk frá 12.-26. mínútu gegn Englandsmeisturunum í gærkvöldi.

„Við vorum fínir fyrstu tíu mínúturnar,“ sagði Inzaghi eftir leikinn. „Við héldum boltanum ágætlega en vorum slakir án boltans sem var ekki gott. Ég er svekktur því við fengum á okkur fyrstu tvö mörkin eftir að hafa skapað færi sjálfir.“

„Það er augljóst að við þurfum að bæta margt í okkar leik. Við enduðum í 8. sæti á síðustu leiktíð og höfum ekki verið saman lengi. Við þurfum að leggja hart að okkur.“

„Mikil vinna er það eina sem mun gera okkur að samheppnishæfu liði. Það er undir mér komið að horfa á leikinn aftur og krefja leikmenn um meira. Ég tel að þegar okkur tekst að sameinast sem hópur þá munum við verða samkeppnishæfir,“ sagði Filippo Inzaghi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×