Ríkissjóður verður af um níu milljörðum króna vegna niðurlagningar auðlegðarskatts en hann var nú lagður á í síðasta sinn. Fyrrverandi formaður viðskiptanefndar Alþingis segir að skatturinn hafi ekki átt að leggjast af fyrr en gjaldeyrishöftin væru felld niður.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir kom skattinum á árið 2010 en hann er lagður á eignir umfram 120 milljónir króna hjá hjónum og 90 milljónir hjá einstaklingum. Skatturinn var fyrst komið tímabundið á til fjögurra ára en Helgi Hjörvar, fyrrverandi formaður viðskiptanefndar Alþingis segir að aðstæður hafi ekki skapast til að aflétta honum strax. Ennþá þurfi þeir sem eigi miklar eignir að bera meiri byrðar hin meðalheimili á landinu.
Miklar tekjur
Helgi segir tekjurnar af skattinum mikilvægar fyrir til dæmis rekstur Landspítalans, Háskóla og fleira og ekkert sé í kortunum sem geti aflað sömu tekna í staðinn. Ríkissjóður verður af níu milljörðum króna vegna niðurlagningar, samkvæmt þeim tekjum sem fást af skattinum og sjá má í síðasta frjálagafrumvarpi.
Mjög umdeildur
Auðlegðarskattur er í raun eignaskattur og leggst helst á eignir fólks yfir fimmtugu og eldra. Skattur er lagður á eignir einstaklinga sem eiga eignir að verðmæti 90 milljónir eða meira og hjón sem eiga 120 milljóna eignir eða meira. Skattaprósentan er frá 1,25 prósent til 2 prósent af verðmæti eigna. Mikið hefur verið deilt um réttmæti skattsins og jafnvel lögmæti. Núverandi ríkisstjórn ákvað að framlengja skattinn ekki og sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að hann efaðist um að hann stæðist stjórnarskrá.
Innlent