Fótbolti

Pjanic íhugaði aldrei að yfirgefa Roma

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Pjanic skorar á HM
Pjanic skorar á HM vísir/getty
Miralem Pjanic miðjumaður ítalska knattspyrnuliðsins Roma segir að hann hafi aldrei íhugað að yfirgefa félagið í sumar þrátt fyrir áhuga bæði PSG og Barcelona.

Pjanic átti frábært tímabil með Roma sem hafnaði í öðru sæti ítölsku A-deildarinnar á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir áhuga stórliða á borð við frönsku meistaranna og Barcelona framlengdi hann samning sinn við Roma til sumarsins 2018.

„Ég skrifaði undir nýjan samning af því að ég trúi á það sem Roma er að reyna að gera, á liðið og þennan þjálfara,“ sagði Pjanic við ítalska fjölmiðilinn Corriere dello Sport.

„Þetta var auðveld ákvörðun. Kannski hefði ég getað fengið meiri pening annars staðar en ég vil leika þar sem ég er ánægður. Mér þykir vænt um fólkið hjá Roma, um félagið og borgina. Þetta er frábær staður til að þróa sinn leik.

„Það hvarflaði aldrei að mér að fara. Samningaviðræðurnar tóku langan tíma vegna þess að þær fóru fram á meðan tímabilið var í gangi. Það voru margar kjaftasögur en forráðamenn Roma vissu alltaf hvað ég vildi og að ég vildi skrifa undir fyrir heimsmeistarakeppnina,“ sagði Pjanic sem lék vel með Bosníu á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×