Belgíski varnarmaðurinn Daniel van Buyten hefur lagt skóna á hilluna.
Van Buyten, sem er 36 ára, fór frá Bayern München í sumar eftir átta ára dvöl hjá þýska liðinu. Hann varð fjórum sinnum þýskur meistari með Bayern, fjórum sinnum bikarmeistari, auk þess sem hann vann Meistaradeild Evrópu með liðinu 2013.
Van Buyten lék einnig með Cherleroi, Standard Liege, Marseille, Manchester City og Hamburger SV á ferlinum.
Þá lék van Buyten 84 landsleiki fyrir Belgíu og skoraði tíu mörk á árunum 2001-2014. Van Buyten lék alla fimm leiki Belgíu á HM í Brasilíu.
Leikurinn gegn Argentínu í 8-liða úrslitum HM var hans síðasti leikur á ferlinum.
Fótbolti