Enski boltinn

Óskar Örn lánaður til Vålerenga - missir af bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson. Vísir/Stefán
Óskar Örn Hauksson mun ekki klára tímabilið með KR-ingum því KR hefur samþykkt að lána hann til norska úrvalsdeildarfélagsins Vålerenga. Óskar Örn fer út á morgun og missir því af bikarúrslitaleiknum á laugardaginn.

Félagsskiptamarkaðurinn í Noregi lokar á miðnætti í kvöld og gat Óskar Örn því ekki beðið með að fara til Noregs þangað til eftir bikarúrslitaleikinn. KR-ingar verða því án þessa sterka leikmanns á móti Keflavík á laugardaginn.

Óskar Örn mun spila við hlið Viðars Arnars Kjartanssonar hjá Vålerenga en Viðar Örn er langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 19 mörk í 19 leikjum.

Þetta verður í þriðja sinn sem Óskar Örn reynir fyrir sér í Noregi en hann lék með Sogndal sumarið 2003 og var lánaður til Sandnes Ulf á svipuðum tíma fyrir tveimur árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×