„Við erum búin að vera föst hérna síðan í gær, án farangurs,“ segir Katrín í samtali við Vísi. Hún segir að svo virðist sem flugfélagið hafi ekki réttar upplýsingar um málið. „Hér eru allir hræddir og halda að þetta verði svipað og gosið í Eyjafjallajökli. Okkur var sagt að það væri gos hafið á Íslandi og ekkert væri flogið til landsins.“

Hópurinn, í fararstjórn Katrínar, hefur dvalið í sumarbúðum nálægt Frankfurt í þrjár vikur.
„Við flugum síðan í fyrradag frá Frankfurt til Berlínar og áttum að fara þaðan heim til Íslands. Svo sáum við bara að „Flight Cancelled“ uppi á töflunni. Við vorum sett á hótel í 36 kílómetra fjarlægð frá vellinum, fimm manneskjur í fjórum rúmum, ekki með neinn farangur og ekki með neinn mat. Okkur var sagt að það væri eldgos á Íslandi og að flugvél Air Berlin væri ekki með búnað til að höndla slíkt.“
Hópurinn mun svo fara til München og fljúga þaðan. „Já, við eigum flug seint í kvöld,“ útskýrir Katrín.
CISV eru alþjóðleg samtök sjálfboðaliða sem með samstarfi sínu hafa þróað tækifæri fyrir fólk á öllum aldri að kynnast ólíkum menningarheimum, eins og kemur fram á heimasíðu samtakanna.