Erlent

Brjóstamjólkurbankar vekja athygli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stefnt er að opnun brjóstamjólkurbanka í Bandaríkjunum.
Stefnt er að opnun brjóstamjólkurbanka í Bandaríkjunum. Vísir/Getty
Brasilískir brjóstamjólkurbankar eru nú taldir geta verið módel fyrir heimsbyggðina. AP greinir frá. Það er mjög algengt í Brasilíu að konur gefi brjóstamjólk í slíka banka, líkt og fólk gefur blóð, en mjólkurbankar þekkjast ekki víða annars staðar í heiminum. Þeir hafa hins vegar gefið góða raun í Brasilíu.

Mjólkin sem geymd er í bönkunum er að mestu gefin fyrirburum á vökudeildum spítala. Einnig er hún notuð í tilfellum þar sem móðirin er ekki fær um að gefa brjóstamjólk vegna fíkniefnanotkunar, veikinda eða annarra vandamála. Talið er að rekja megi lægri tíðni ungbarnadauða í Brasilíu m.a. til brjóstamjólkurbankanna.

Bankarnir söfnuðu mjólk frá um 150.000 konum á seinasta ári og nutu 155.000 börn góðs af. Um 15 ríki í Rómönsku Ameríku og Afríku hafa sett upp sambærilega banka, auk Spánar og Portúgals. Í seinustu viku fóru svo bandarískir læknar til Brasilíu þar sem stefnt er að því að stofna brjóstamjólkurbanka við háskólaspítalann Ann Arbor í Michigan.

„Það er lögð mikil áhersla á að efla og auka brjóstagjöf á meðal bandarískra mæðra. Það er lagt mikið opinbert fé í að auglýsa kosti brjóstagjafar en það að bjóða upp á að gefa brjóstamjólk til mæðra sem geta ekki mjólkað sjálfar er ekki vel þekkt. Brasilía er í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að því,“ segir Dr. Lisa Hammer, barnalæknir við Háskólann í Michigan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×