Erlent

Fimmtán ára stúlka myrt á Indlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmörg mótmæli hafa verið haldin í Indlandi síðustu ár gegn nauðgunum.
Fjölmörg mótmæli hafa verið haldin í Indlandi síðustu ár gegn nauðgunum. Vísir/AFP
Fimmtán ára stúlka fannst látin í austurhluta Indlands, en talið er að henni hafi verið nauðgað áður en hún var myrt. Degi áður hafði henni verið hótað af öldungum þorpsins sem fjölskylda hennar býr í, eftir að hún sakaði þá um að áreita föður sinn.

Samkvæmt frétt BBC um málið segir fjölskylda stúlkunnar að hún og faðir hennar hafi verið kallaðir fyrir öldungana til að útkljá deilu um traktor. Eftir að hún sakaði þá um að áreita föður sinn neyddu þeir hana til að hrækja á jörðina og sleikja það upp aftur, en það er álitin vera mikil niðurlæging á svæðinu.

Á meðan réttarhöldin vegna deilunnar um traktorinn stóðu yfir hvarf stúlkan. Lík hennar fannst degi seinna, hálf-nakið, við lestarteina í nálægð við þorpið.

Fjölskylda hennar hefur lagt fram kvörtun gegn 13 einstaklingum í þorpinu en enginn hefur verið handtekinn.

Þá segja íbúar þorpsins við fréttaritara BBC að atvikið hafi orðið vegna pólitískra deilna á milli fjölskyldu stúlkunnar og öldunganna.

Fyrr á þessu ári varð kona í öðru þorpi á svæðinu fyrir hópnauðgun, sem sögð er hafa verið skipuð af öldungum þorpsins sem hún bjó í. Ástæðan mun vera að þeir hafi verið á móti sambandi hennar við mann frá öðru þorpi. Þá segir lögreglan að árið 2010 hafi öldungar í nálægu þorpi neytt þrjár konur til að ganga naktar í gegnum hóp af fólki. Þar mun sama ástæða hafa legið að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×