Innlent

Þarf ekki að grafa upp hundinn nema að húsfélagið krefjist þess

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ármann hafði ekki samráð við nágranna sína í húsinu áður en hann útbjó leiðið.
Ármann hafði ekki samráð við nágranna sína í húsinu áður en hann útbjó leiðið. Mynd / Ármann
Ármann Örn Sigursteinsson þarf ekki að grafa upp hundinn sinn nema að aðrir íbúðaeigendur í fjölbýlishúsinu sem hann býr í geri þá kröfu. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra mun ekki aðhafast frekar í málinu og hefur lagt ákvörðun um framhaldið í hendur húsfélagsins. Þetta segir Alfreð Schiöth, dýralæknir og heilbrigðisfulltrúi við embættið.

Vísir sagði frá því í gær að Ármann Örn væri ósáttur við að vera gert að fjarlægja leiði sem hann hafði útbúið fyrir hundinn sinn sem drapst eftir að hafa orðið fyrir bíl. Hann var ósáttur við samskipti sín við heilbrigðiseftirlitið og viðurkenndi að hafa orðið pirraður á símtalinu.

„Hann fór að segja að þetta væri ólöglegt og eitthvað. Ég hef aldrei heyrt annað en að fólki sé frjálst að grafa dýrin sín í sínum eigin garði,“ sagði hann. Það er þó raunin, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu.

Alfreð segir að ekki sé gert ráð fyrir því að fólk grafi dýrin sín í eigin görðum. Hann sé þó meðvitaður um að smærri dýr, eins og hamstrar, kettir og jafnvel smáhundar, eins og hundur Ármanns, séu grafnir í húsagörðum.

Hann segist hafa haft samband við Ármann eftir að hafa átt samtöl við nágranna hans. Nágrannarnir hafi sagt að ekki hafi verið haft samráð við þá áður en leiðinu var komið fyrir í garðinum. Ármann kannast þó ekki við að hafa fengið kvartanir frá nágrönnum sínum

Upphaflega kom fyrirspurn um það frá fjölskylduföður í hverfinu sem hafði fengið spurningar frá börnum sínum um hver væri grafinn í garði nágrannanna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×