Erlent

Loftárásir á Kobane halda áfram

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fjölmargar loftárásir hafa verið gerðar á borgina undanfarið.
Fjölmargar loftárásir hafa verið gerðar á borgina undanfarið. Vísir / AFP
Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra héldu áfram loftárásum á borgina Kobane við landamæri Sýrlands og Tyrklands í dag. Minnst sex árásir voru gerðar á borgina en þar hafa hörð átök geisað á milli hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkið og hersveita Kúrda.

Barist er um yfirráð í borginni sem stendur þétt við landamærin að Tyrklandi en henni tilheyrir um 95 kílómetra langt landsvæði meðfram landamærunum. Hryðjuverkasamtökin hafa nú barist við hersveitir Kúrda í um mánuð.

Kúrdar hafa nú náð undirtökum í flestum hverfum borgarinnar en loftárásir Bandaríkjanna og bandamanna þeirra hafa haft mikil áhrif á stöðuna. Mikill fjöldi óbreyttra borgara hafa flúið Kobane frá því að átökin hófust. Flestir hafa farið yfir landamærin til Tyrklands.  

Samtökin Sýrlenska mannréttindavaktin fullyrðir að loftárásir Bandaríkjanna og bandamanna hafi kostað tíu óbreytta borgara lífið. Þessu hefur bandaríski herinn hinsvegar hafnað og sagt að engin gögn styðji fullyrðingar samtakanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×