Fótbolti

Platini: Hvað ef að þetta hefði verið sprengja?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, hefur tjáð sig um aðstæðurnar sem sköpuðust á Partizan-vellinum í Belgrad á þriðjudagskvöldið þegar Martin Atkinson varð að flauta af leik Serbíu og Albaníu í undankeppni EM.

Martin Atkinson hafði fyrst stöðvað leikinn undir lok fyrri hálfleiks þegar dróni sveif yfir vellinum en í honum hékk albanskur fáni þar sem var búið að bæta Kosovo-héraðinu við Albaníu.

Allt varð síðan vitlaust á vellinum þegar að Serbinn Stefan Mitrovic reif niður fánann en við það trylltust margir leikmenn albanska landsliðsins og völlurinn fylltist af öðrum en leikmönnum.

„Við erum að bíða eftir skýrslum dómarans, eftirlitsmannsins og öryggisvarðar sem við sendum sérstaklega á þennan leik. Það sem gerðist var vandræðalegt," sagði Michel Platini.

Platini bendir þó á það að UEFA verði að fara varlega þegar refsingin verður ákveðin því það er mikil pólítísk spenna í þessu máli. Platini segir líka að þetta hefði getað verið mun verra.

„Hvað ef að þetta hefði verið sprengja í stað flagsins," spyr Platini. UEFA mun væntanlega taka ákvörðun um refsingar 23. október næstkomandi og orðrómur í Serbíu er að leikurinn fari fram á næsta ári fyrir framan tómar stúkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×