Lífið

"Lífið mitt einkenndist af búlímíu“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Dóra.
Dóra. mynd/úr einkasafni
„Ég er svo lengi búin að vilja skrifa grein um það sem hefur hrjáð mig og svo ótrúlega marga aðra en ég hef aldrei treyst mér til þess. Skömmin er svo mikil sem og stoltið sem maður heldur að sé í húfi. En ég ætla að bera ábyrgð á minni eigin hamingju og ég ætla að horfast í augu við hræðsluna mína,“ skrifar Dóra Júlía Agnarsdóttir í bloggfærslu sem hún birti fyrr í dag.

Grét því hún var með feitan maga

Í bloggfærslunni rekur hún langa og erfiða baráttu sína við átröskun. Hún man enn þegar hún horfði á fegurðarsamkeppnina Ungfrú Ísland sjö eða átta ára gömul.

„Ein ákveðin minning situr alltaf föst í hausnum á mér. Hún er frá því ég var svona 7 eða 8 ára gömul. Frændi minn var að passa mig og systkini mín og það var kveikt á sjónvarpinu niðrí stofu. Ungfrú Ísland var í gangi og einhverra hluta vegna ákvað ég að sitja ein og horfa aðeins á hana. Ég var dolfallin yfir fegurðinni og glamúrnum sem blasti við á skjánum og eftir að einhverskonar bikiní tískusýning hafði átt sér stað fór ég upp í herbergið mitt og klæddi mig úr fötunum og stóð fyrir framan spegilinn. Ég horfði á mig í nærfötunum og byrjaði svo að gráta af því mér fannst ég með svo feitan maga. 7 eða 8 ára gömul!“

Þráhyggjan breyttist í hættulegan sjúkdóm

Dóra segir að hún hafi alltaf þurft að vekja athygli á sér á einhvern hátt, til dæmis með því að klæða sig á áberandi hátt. Á unglingsárunum taldi hún mikilvægast að líta vel út.

„Mér fannst fátt skemmtilegra en þegar ókunnugt fólk vissi hver ég væri og þegar fólk hrósaði mér fyrir að vera sæt eða flott eða eitthvað slíkt. Mér fannst mikilvægi mitt liggja í útlitinu, það væri það mikilvægasta sem ég gæti átt. Ég veit ekki nákvæmlega af hverju það var, ég var ekkert alin upp við þær hugmyndir en ég var hinsvegar alltaf hrikalega áhrifagjörn, meðtækileg og hvatvís og ég held mér sjálfri hafi svolítið fundist að samfélagið væri óbeint að segja mér að í útlitinu lægi tilgangur lífsins. Það var svo seinna meir að þessi þráhyggja mín um útlit fór að breytast í hættulegan sjúkdóm,“ skrifar Dóra. Hún segir að vandamál sitt með mat hafi hafist þegar hún var fjórtán ára.

„Ég hafði ótrúlegan áhuga á tísku og sá ekki sólina fyrir hátískufyrirsætum. Ég vildi vera eins flott og þær og með því hélt ég að ég gæti áorkað hverju sem er í lífinu. Þannig byrjaði ég í rauninni að svelta mig. Ég hætti að borða allt nammi, allt gos, kökur, brauð og fleira og tók með mér tvo extra tyggjópakka í skólann sem ég japlaði á yfir daginn. Ég æfði ballett og jazzballet 6 daga vikunnar og var því gjarnan á æfingum á kvöldin. Svo þegar ég kom heim beið mín matur á eldhúsborðinu, þá setti ég mat á diskinn og dreifði honum um allt, henti svo matnum og þá leit út fyrir að matur hefði verið borðaður af disknum. Þegar ég var í bleiku balletsokkabuxunum og svarta ballettbolnum gat ég ekki horft á mig í speglinum ef ég var búin að borða eitthvað, mér fannst ég þá fáránleg og í fullkominni einlægni feit.“

Allt snerist um að vera mjó

Hún segist þakka guði fyrir skólahjúkrunarkonuna sem tók hana í viðtal vikulega og smátt og smátt áttaði Dóra sig á því að hún ætti í óheilbrigðu sambandi við mat. Þegar hún byrjaði í menntaskóla breytti hún um lífsstíl og hætti að hafa svona mikla þráhyggju fyrir mat. Hún hélt því þannig næstu fjögur árin en þegar hún varð tvítug skildu foreldrar hennar. Þá fór að halla undan fæti hjá Dóru á nýjan leik.

„Ég djammaði mjög mikið, tók mjög slæmar ákvarðanir og hætti með og særði kærastann minn sem var ástin í lífi mínu. Allt í einu fannst mér ég ekki hafa tök á neinu í lífinu, eins og ég hefði ekkert um það að segja hvernig lífið mitt yrði og mér fór að líða mjög illa og út frá því missa matarlystina. Ég grenntist frekar hratt á stuttum tíma og þá byrjaði þessi vellíðunartilfinning að hellast yfir mig, þessi fíkn sem fylgir því að grennast. Mér fannst ég loksins hafa tök á einhverju, að ég hefði tök á mínum eigin líkama. Þá fór allt að snúast um að vera mjó og vá, það sem ég elskaði að heyra aðra tala við mig um hvað ég væri orðin grönn, mér fannst eins og það væri að hrósa mér fyrir að hafa áorkað því að hafa náð þessu líkamlega „formi“ sem ég var í þegar fólk var í raun að lýsa áhyggjum sínum yfir mér. Lífið mitt einkenndist af búlímíu og ég átti það til að kasta upp allt að 5 sinnum á dag. Ég var alltaf með tannbursta í veskinu sem ég notaði til að hjálpa mér og það skipti ekki máli hvar ég var, ég gat alltaf hugsað fyrir því hvar ég gæti næst kastað upp,“ skrifar Dóra.

Útlitsdýrkun vandamál í nútímasamfélagi

Ekki leið á löngu þar til skömmin helltist yfir hana og nú er hún loksins búin að átta sig á því að átröskun er alvörunni sjúkdómur.

„Útlitsdýrkun er svo sannarlega vandamál í nútímasamfélagi og það er eitthvað sem verður að laga en ég held að leiðin að einhverskonar lausn liggi í sjálfseflingu og styrkingu á okkur sjálfum en ekki í því að benda á einhvern annan. Hvað mig varðar er ég loksins búin að átta mig á því að þetta er í alvörunni sjúkdómur. Heilinn minn hann er ekki alveg að virka rétt þegar kemur að mat og ég nenni ekki lengur að skammast mín eða að líða endalaust illa með mig sjálfa og hvernig manneskja ég er. Matur stjórnar ekki lengur öllu lífinu mínu. Ég veit að það verður ekki auðvelt að sigrast fullkomlega á þessu en maður verður að byrja einhversstaðar, vera bjartsýnn og gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að sættast við sjálfan sig og láta lífið einkennast af hamingju.“

Pistil Dóru má lesa í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×