Fótbolti

Gylfi: Ætlum að spila okkar sóknarbolta þegar við fáum tækifæri á því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Vilhelm
Gylfi Þór Sigurðsson gerir allt til þess að vera leikfær fyrir leikinn á móti Hollandi á morgun en hann meiddist á ökkla í upphafi leiks á móti Lettlandi. Gylfi hélt áfram og fór ekki útaf fyrr en að sigurinn var svo gott sem í höfn.

„Markmiðið fyrir keppnina var alltaf að taka sex stig í þessum tveimur leikjum en ef að við eigum að vera sanngjarnir þá hefði fjögur stig verið mjög gott. Við áttum frábæran leik á móti Tyrkjum og svo var þetta svona skyldusigur úti á móti Lettunum síðast. Það væri frábært ef að við myndum ná í að minnsta kosti eitt stig á móti Hollendingunum á mánudaginn (morgun)," sagði Gylfi þegar hann hitti blaðamann á Hótel Nordica í dag.

Gylfi býst við allt öðrum leik heldur en á móti Lettlandi þar sem íslenska liðið var með boltann nær allan tímann.

„Þessi leikur mun eflaust snúast alveg við frá því í leiknum á móti Lettunum. Við eigum eftir að vera þéttir til baka en við ætlum samt að spila okkar sóknarbolta þegar við fáum tækifæri á því," sagði Gylfi.

Íslenska liðið hefur fengið sex stig af sex mögulegum og er ekki ennþá búið að fá á sig mark eftir tvo leiki í undankeppni EM.

„Allt liðið fær hrós fyrir það hvernig við erum búnir að verjast. Við erum mjög skipulagðir varnarlega og svo vörnin búin að standa fyrir sínu enda búnir að skalla allt frá og hreinsa allt í burtu. Þeir eiga því mikið lof skilið," sagði Gylfi.

Framundan er leikur við Holland fyrir framan troðfullar stúkur á Laugardalsvellinum.

„Það er búið að vera fullt á Laugardalsvellinum síðustu fimm til sex leikjum og það er mjög mikil stemning á vellinum og áhuginn á landinu fyrir landsliðinu er líka á mikill uppleið og það er mjög jákvætt," sagði Gylfi að lokum.


Tengdar fréttir

Gylfi: Vildi klára leikinn

Gylfi Þór Sigurðsson kom Íslandi á bragðið í 3-0 sigrinum í Riga í kvöld en hann varð þó fyrir meiðslum snemma leiks.

Gylfi bara á strigaskónum á æfingunni

Íslenska karlalandsliðið æfði í dag á Laugardalsvellinum og margra augu voru á Gylfa Þór Sigurðssyni sem meiddist í sigurleiknum í Lettlandi á föstudagskvöldið. Framundan er leikur við Hollendinga á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×