Fótbolti

Hólmbert: Tók á að verjast svona mikið

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Hólmbert í erfiðum slag einu sinni sem oftar í kvöld.
Hólmbert í erfiðum slag einu sinni sem oftar í kvöld. vísir/daníel
„Þetta þarf maður stundum að gera þegar maður er að spila á útivelli gegn mjög góðu liði," segir framherjinn Hólmbert Aron Friðjónsson og glotti eftir markalausa jafnteflið í Álaborg í kvöld.

Það var lítið að gera hjá honum og Emil Atlasyni í framlínunni en þeir lögðu sig þó alla fram og gerðu það sem þeir gátu.

„Þetta eru tveir leikir og við urðum að ná góðum úrslitum í dag. Það lögðu sig allir í þetta til þess að ná þessu jafntefli í dag. Uppleggið var að loka á þá og reyna svo skyndisóknir. Það tók á að verjast svona mikið og menn voru þreyttir er þeir fengu boltann.

„Það er auðvitað ekki gaman að vera framherji í svona leik en maður verður stundum að gera eitthvað fyrir liðið. Jafntefli á útivelli gegn þessu sterka liði eru auðvitað frábær úrslit fyrir okkur. Mér fannst okkar taktík ganga frábærlega upp."

Nú þurfa Hólmbert og félagar aftur á móti að sýna að þeir geti sótt í seinni leiknum. Það ætla þeir að gera.

„Ég vona að við getum haldið boltanum betur þá og spilað þann fína sóknarleik sem við höfum verið að gera. Við ætlum okkur að klára þetta og við viljum þetta mjög mikið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×