Fótbolti

Lést eftir að hafa dottið illa þegar hann fagnaði marki - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heljarstökk eins og Kenwyne Jones reynir hér geta verið lífshættuleg. Jones tengist fréttinni ekkert að öðru leyti.
Heljarstökk eins og Kenwyne Jones reynir hér geta verið lífshættuleg. Jones tengist fréttinni ekkert að öðru leyti. Vísir/Getty
Peter Biaksangzuala, indverskur fótboltamaður, lést nokkrum dögum eftir að hafa meiðst illa við að fagna marki með liði sínu Bethlehem Vengthlang FC.

Biaksangzuala skoraði markið sitt af stuttu færi þegar hann fylgdi á eftir aukaspyrnu félaga síns og var það kátur að hann reyndi heljarstökk þegar hann fagnaði markinu en með skelfilegum afleiðingum.

Biaksangzuala var 23 ára gamall en hann féll mjög illa á hálsinn þegar heljarstökkið misheppnaðist hræðilega. Liðsfélagar hans þutu til hans þegar hann lá hreyfingalaus á vellinum. Biaksangzuala var fluttur á sjúkrahús en það tókst ekki að bjarga lífi hans.

Það er hægt að sjá myndband af þessu hér fyrir neðan en það er rétt að vara viðkvæma við þessum myndum.

„Þetta er mikill sorgardagur fyrir fótboltann í Mizoram og það eru allir í sjokki yfir þessum örlögum hans, liðsfélagarnir, þjálfararnir, stuðningsmennir og allir," sagði í yfirlýsingu á fésbókarsíðu Mizoram-deildarinnar.

Bethlehem Vengthlang FC félagið í norðaustur Indlandi ætlar að taka treyju Peter Biaksangzuala, númer 21, úr notkun og hengja hana upp í rjáfur til minningar um leikmanninn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×