Innlent

Íslensk stúlka alvarlega slösuð eftir mótorkrossslys í Noregi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brynja Hlíf Hjaltadóttir hefur æft mótorkross í nokkur ár og keppt í greininni síðustu þrjú sumur.
Brynja Hlíf Hjaltadóttir hefur æft mótorkross í nokkur ár og keppt í greininni síðustu þrjú sumur.
Brynja Hlíf Hjaltadóttir, 16 ára íslensk stúlka, lenti í alvarlegu mótorkrossslysi í Noregi á þriðjudaginn í seinustu viku.

Brynja er nemandi í íþróttaskóla í Setesdal sem er um 200 km suður af Ósló. Vísir náði tali af Hjalta Úrsus Árnasyni, föður Brynju, sem er staddur úti í Noregi.

„Við vitum í raun og veru ekki ennþá hvað gerðist. Staðan er það alvarleg að við höfum ekki viljað spyrja hana út í hvað gerðist nákvæmlega,“ segir Hjalti.

Þrír hryggjarliðir brotnuðu og segir Hjalti að Brynja sé tilfinningalaus í fótunum eins og er.

„Þetta var náttúrulega mjög mikil aðgerð sem var gerð á bakinu á henni. Við höfum fulla trú á því að þetta muni ganga til baka og hún fái tilfinningu aftur í fæturna.“

Hjalti Úrsus Árnason, faðir Brynju, segir fjölskylduna bjartsýna á framhaldið.Mynd/Sigurjón
Hjalti segir að Brynja sé smám saman að komast til meðvitundar og að hún sýni miklar framfarir. Það sé gríðarlega mikill munur á henni.

„Hún er mjög sterk og stendur sig gríðarlega vel. Við höfum fulla trú á þessu og höldum í vonina þó að staðan sé erfið akkúrat núna. Læknarnir hafa sérstaklega talað um það hvað hún sé sterk og að það hjálpi henni mikið í batanum,“ segir Hjalti. Hann tekur jafnframt fram að umönnun á sjúkrahúsinu sé öll eins og best verður á kosið.

Brynja hefur æft mótorkross í nokkur ár og keppt í greininni síðustu þrjú sumur. Hún fór út til Noregs í ágúst síðastliðnum til að læra meira í íþróttinni en um eins árs nám er að ræða.

Hjalti og fjölskylda vilja þakka öllum sem hafa sýnt þeim stuðning og hlýhug í baráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×