Flugleið Flugfélags Íslands milli Reykjavíkur og Egilsstaða liggur rétt norðan við eldstöðina á Dyngjusandi og í björtu veðri geta farþegar sem hafa útsýni til suðurs átt von á að sjá mesta hraungos sem komið hefur upp á Íslandi frá Skaftáreldum. Á myndum sem Egill Aðalsteinsson, kvikmyndatökumaður Stöðvar 2 tók í vikunni, mátti sjá nýtt hraunið skera sig greinilega úr frá hvítri snjóbreiðunni sem komin er yfir hálendið. Farþegar horfa nánast beint ofan í eldspúandi gíginn og rauðglóandi hraunárnar.

