Fótbolti

Romario: Neymar getur orðið betri en Messi en enginn fer fram úr mér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi og Neymar eru samherjar hjá Barcelona.
Lionel Messi og Neymar eru samherjar hjá Barcelona. vísir/getty
Romario, fyrrverandi markahrókur brasilíska landsliðsins í knattspyrnu, telur að samlandi sinn Neymar geti orðið betri leikmaður en Argentínumaðurinn Lionel Messi.

Neymar stóð sig vel með Brasilíu á HM og var lykilmaður í brasilíska liðinu. Hann missti þó af undanúrslitaleiknum gegn Þýskalandi vegna bakmeiðsla.

Á sama tíma komst Lionel Messi með Argentínu í úrslitaleikinn þar sem liðið tapaði 1-0 fyrir Þýskalandi í framlengdum leik. Messi var kjörinn besti leikmaður mótsins sem fáir voru sammála um að væri rétt.

„Neymar hefur alla burði til þess að verða betri en Messi,“ segir Romario, heimsmeistari með Brasilíu árið 1994, í viðtali við RevistaTrip

„Kannski fer Messi ekki aftur á HM, en Neymar á eftir að fara þrisvar til fjórum sinnum í viðbót.“

Romario skoraði 55 mörk fyrir brasilíska landsliðið á sínum landsliðsferli, en hinn 22 ára gamli Neymar er nú þegar búinn að skora 42 landsliðsmörk.

Romario grínast með það í viðtalinu að Neymar mun vafalítið taka fram úr honum á markalistanum en hann sé sjálfur sá besti sem spilað hefur fyrir Brasilíu.

„Hvað varðar mörk fyrir brasilíska landsliðið þá mun Neymar fara fram úr mér. En það verður enginn betri en Romario. Hann mun bara skora fleiri mörk. Hann mun kannski skora 1.000 mörk en enginn verður eins og Romario!“

Romaro á ekki markametið með brasilíska landsliðinu heldur Pelé. Hann skoraði 77 mörk í 92 landsleikjum. Neymar fær tækifæri til að færast nær Romario, Ronaldo og Pelé í kvöld þegar Brasilía mætir Austurríki í vináttuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×