Fótbolti

Maloney tryggði Skotum sigur á Írum - spenna í D-riðli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Shaun Maloney fagnar sigurmarkinu.
Shaun Maloney fagnar sigurmarkinu. vísir/afp
Skotar komu sér í toppbaráttu D-riðils í undankeppni EM 2016 í fótbolta með flottum 1-0 sigri á nágrönnum sínum frá Írlandi í kvöld.

Shaun Maloney, leikmaður Wigan í B-deildinni á Englandi, skoraði eina markið með glæsilegu skoti á 75. mínútu sem hann skrúfaði í fjærhornið vinstra megin úr teignum.

Írarnir sóttu mikið síðasta korterið og áttu tvo skalla í slána, en það dugði ekki til. Heimamenn hirtu öll þrjú stigin og eru nú komnir með sjö stig eins og Írar.

Í sama riðli lögðu Þjóðverjar nýliða Gíbraltar örugglega, 4-0, en margir hefðu eflaust búist við mun stærri sigri heimsmeistaranna gegn áhugamannaliðinu.

Thomas Müller skoraði tvö mörk og heldur áfram að bæta landsliðsmörkum í sarpinn og þá skoraði Mario Götze eitt mark auk þess sem gestirnir settu boltann einu sinni í eigið net.

Fyrr í dag unnu Pólverjar svo öruggan 4-0 sigur á Georgíu í Tbilisi þar sem Kamil Glik, Grzegorz Krychowiak, Sebastian Mila og Arkadiusz Milik skoruðu mörkin.

Pólverjar eru á toppi riðilsins með tíu stig, en Írar, Skota og Þjóðverjar koma næstir með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×