Innlent

Sérfræðingar ósammála: „Kannabis veldur ekki geðklofa“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Í gær fjallaði fréttaskýringaþátturinn Brestir um mögulegan lækningamátt kannabis við krabbameini.

Rætt var við Ásgeir Daða Rúnarsson sem hefur sjálfur nýtt sér kannabis í baráttu sinni við krabbamein. Einnig var talað við Sigurð Jón Súddason sem greindist með heilaæxli í fyrra. Hann notar kannabis í þeirri von um að læknast af krabbameininu.

Fræðimenn eru ekki á alls kostar sammála um það hvort kannabis hafi skaðleg áhrif á fólk.

Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði, segir að fólk verði að hafa í huga skaðsemi kannabisplöntunnar auk þess sem sumar rannsóknir sýni að hættan á geðklofa geti fjórfaldast vegna reglulegrar notkunar á kannabis á unga aldri.

„Það að einhver efni kannabisplöntunnar geti haft eitthvert lækningalegt gildi verður að vega á móti hugsanlegri skaðsemi,“ sagði Engilbert.

„Rannsóknir sýna eða styrkja að fimm til tuttugu prósent þeirra sem fá geðklofa hefðu ekki fengið geðklofa ef þeir hefðu ekki neitt kannabis.“

David Nutt, fyrrverandi aðalráðgjafi breskra stjórnvalda í vímuefnamálum, er ekki sammála Engilberti.

„Kannabis veldur ekki geðklofa. Það sem kannabis gerir er að koma fólki í ástand sem sé svipað og geðklofi, það ástand hverfur aftur á móti þegar fólk hættir að nota efnið. Það eru mjög litlar sannanir til sem segja að kannabis valdi langtíma skaða á heilastarfsemi fólks,“ sagði Nutt í þættinum í gær.

„Við sjáum þessi vandamál mest hjá ungu fólki með geðrofseinkenni svona sturlunareinkenni, ofskynjanir, ranghugmyndir, truflanir á hugsun, geta ekki orðað skýrt sína hugsun og sumir þeirra þróa með sér veikindi sem verða alveg eins og geðklofa sjúkdómur,“ sagði Engilbert í þættinum.

„Í hinum vestræna heimi hefur neysla á kannabis aukist um tuttugu til þrjátíufalt en á sama tíma hafa tilfelli um geðklofa ekki aukist neitt,“ sagði Nutt að lokum.


Tengdar fréttir

Vill að yfirvöld taki kannabis til skoðunar

Kristín Ingólfsdóttir, lyfjafræðiprófessor og rektor Háskóla Íslands, telur að heilbrigðisyfirvöld eigi að skoða í fullri alvöru að leyfa kannabis í lækningaskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×