Erlent

Búið að bjarga öllum farþegum frá borði

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrsta skipið með farþegum sigldi til hafnar í ítölsku borginni Bari í morgun.
Fyrsta skipið með farþegum sigldi til hafnar í ítölsku borginni Bari í morgun. Vísir/AP
Talsmaður ítölsku landhelgisgæslunnar segir að búið sé að bjarga öllum frá borði brennandi ferjunnar í Adríahafi. Alls fórust sjö manns, en eldur kom upp á bílaþilfari ferjunnar í gærkvöldi, skammt frá grísku eyjunni Korfú.

Björgunaraðgerðir hafa staðið yfir í margar klukkustundir en bjarga þurfti tæplega 500 farþegum frá borði. Fyrsta skipið með farþegum sigldi til hafnar í ítölsku borginni Bari í morgun.

Skipstjóri ferjunnar var síðasti maðurinn frá borði, rúmum 36 tímum eftir að hafa sent út neyðarboð.

Í frétt BBC kemur fram að einn farþeganna sagði í samtali við ítalska sjónvarpsstöð að mjög kalt haft hafi verið í veðri, vindasamt, auk þess að reykurinn hafi reynst þeim farþegunum erfiður. Þá var þilfarið mjög heitt vegna eldsins. Farþegar voru fluttir frá borði í smáum hópum með þyrlum sem gerði það að verkum að björgunarstarf tók langan tíma.

Ekki liggur fyrir um orsök brunans. Flestir farþega ferjunnar voru Grikkir, en að sögn AP voru 234 farþegar og 34 áhafnarmeðlimir Grikkir. Aðrir farþegar ferjunnar voru meðal annars fra Ítalíu, Tyrklandi, Albaníu og Þýskalandi.


Tengdar fréttir

Ferja brennur undan strönd Corfu

Rúmlega tvöhundruð og fimmtíu manns eru enn um borð í ítölsku ferjunni sem brennur nú undan ströndum grísku eyjunnar Corfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×