Erlent

Fæðingarheimili Hitlers enn til vandræða

Atli Ísleifsson skrifar
Húsið stendur við Salzburger Vorstadt 15 í landamærabænum Braunau.
Húsið stendur við Salzburger Vorstadt 15 í landamærabænum Braunau. Vísir/AP
Húsið í austurríska bænum Braunau am Inn þar sem Adolf Hitler fæddist árið 1889 hefur nú staðið autt í þrjú ár og vita fulltrúar yfirvalda ekki hvað skuli til bragðs að taka.

Húsið hefur síðastliðin ár verið leigt út af innanríkisráðuneyti Austurríkis til að koma í veg fyrir að nýnasistar safnist þar saman. Margir vilja jafna húsið við jörðu og aðrir opna þar safn.

Húsið stendur við Salzburger Vorstadt 15 í landamærabænum Braunau. Fjölskylda Hitlers tók nokkur herbergi á efri hæð hússins á leigu í nokkrar vikur árið 1889, einmitt á þeim tíma þegar Hitler kom í heiminn.

Eftir seinna stríð var húsið notað sem bókasafn, síðar bankaskrifstofur og loks heilsugæsla en síðustu ár hefur húsið staðið autt.

Kona að nafni Gelinde Pommer á fasteignina en hún neitar að gera nauðsynlegar endurbætur á húsinu sem var upphaflega reist á sautjándu öld. Hún hefur leigt innanríkisráðuneyti Austurríkis eignina frá árinu 1972.

Síðustu þrjú árin hefur húsið staðið autt, en fjölmörgum hugmyndum hefur verið varpað fram um hvernig megi nýta það. Lagt hefur verið til að breyta því í íbúðahús, nýta til fullorðinskennslu eða innrétta safn eða miðstöð til að minnast fórnarlamba þriðja ríkisins. Árið 2012 bauðst rússneski stjórnmálamaðurinn Frants Klintsevich til að kaupa húsið og sprengja það í sundur.

Faðir Hitlers, Alois, starfaði sem tollvörður í bænum á þeim tíma þegar Hitler fæddist. Fjölskyldan flutti frá Braunau þegar Adolf var þriggja ára gamall, en bærinn stendur við landamæri Austurríkis og Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×