Erlent

Api bjargar vini sínum úr bráðri lífshættu

Hrund Þórsdóttir skrifar
Á Indlandi er mikið um apa og um leið og hoggið er af skógunum og þéttbýlissvæði stækka, er skorið af náttúrulegum heimkynnum þeirra svo dýrin hrekjast á mannaslóðir.

Ekki vildi betur til en svo að api sem var á ferð um lestarteina í borginni Kanpur um helgina slasaði sig á háspennuvír, missti við það meðvitund og féll niður á teinana.

En þegar neyðin er stærst er hjálpin oft næst og í þessu tilfelli kom góður vinur til aðstoðar. Þótt illa gengi í fyrstu gafst bjargvætturinn ekki upp og reyndi hann meðal annars að slá og bíta þann slasaða og dýfa honum í vatn, til að kalla fram viðbrögð.

Eftir um tuttugu mínútna björgunaraðgerðir hafði hann erindi sem erfiði og það vakti fögnuð viðstaddra þegar þarna sýndi sig að það á við í náttúrunni rétt eins og hjá okkur mönnunum, að góður vinur getur gert kraftaverk.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá þessa fallegu lífsbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×