Króatarnir voru handteknir fyrir að trufla leikinn með því að henda flugeldum og blysum inn á völlinn en dómari leiksins þurfti fyrsta að stoppa leikinn í nokkrar mínútur í fyrri hálfleik. Hann varð svo að gera tíu mínútna hlé í seinni hálfleik á meðan ítalska lögreglan fjarlægði umrædda Króata úr stúkunni á San Siro.
Síðustu sautján mínútur leiksins fóru því ekki fram fyrr en öryggislögreglan var búinn að reka umrædda ólátabelgi í burtu úr stúkunni. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en bæði mörkin komu snemma leiks. Hér fyrir neðan má sjá frétt Arnars Björnssonar um leikinn í kvöldfréttum Stöðvar tvö.
Niko Kovac, þjálfari Króata, biðlaði til stuðningsmanna Króata að róa sig á meðan leiknum stóð og hann skammaði sín fyrir framkomu landa sinna í viðtölum við blaðamenn. „Þetta er ekki fótbolti. Þetta er heldur ekki sanngjarnt fyrir ímynd okkar þjóðar og okkar fólks," sagði Niko Kovac eftir leik.
