Enski boltinn

Van Gaal er ekki ógnandi heldur heiðarlegur

Blind á ferðinni um síðustu helgi. Hann var eins og kóngur í ríki sínu á miðjunni hjá Man. Utd.
Blind á ferðinni um síðustu helgi. Hann var eins og kóngur í ríki sínu á miðjunni hjá Man. Utd. vísir/getty
Hollendingurinn Daley Blind byrjaði frábærlega með Man. Utd um síðustu helgi og hann hrósar stjóra liðsins, Louis van Gaal, fyrir að vera einstaklega heiðarlegur.

Blind þekkir Van Gaal vel eftir að hafa fengið eldskírn sína með hollenska landsliðinu undir stjórn Van Gaal. Blind er fullviss um að stjórnunarhæfileikar Van Gaal muni setja félagið aftur á þann stall sem það var.

„Hann er ekkert ógnandi, bara heiðarlegur. Það getur farið um marga þegar hann segir hlutina hreint út en ég kann að meta það," sagði Blind.

„Hann er mjög heiðarlegur við alla. Hann veit hvað hann vill og hvað hann ætlar sér að gera og ná út úr mönnum. Van Gaal nær til leikmanna sinna og býr til góða liðsheild."

Blind var virkilega sannfærandi í leiknum gegn QPR og hann segir að Van Gaal eigi eftir að gera sig að betri leikmanni.

„Ég hef lært mikið af honum nú þegar og mér finnst gott að vera undir hans stjórn. Ég held að hann geti gert mig að enn betri leikmanni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×