Arkadiusz Milik, framherji Ajax, skoraði seinna mark Pólverja í 2-2 jafntefli á móti Sviss í vináttulandsleik í Wroclaw í Póllandi í kvöld.
Milik er helsti keppninautur Kolbeins Sigþórssonar um framherjastöðuna í Ajax en þessi tvítugi Pólverji hefur skorað 5 mörk í 6 leikjum í hollensku deildinni í vetur. Hann er í láni frá Bayer Leverkusen.
Milik var þarna að skora í öðrum landsleiknum í röð en hann var einnig á skotskónum í 4-0 sigri á Georgíu um helgina og skoraði einnig í sigri á Þjóðverjum í október.
Josip Drmic kom Svisslendingum í 1-0 strax á fjórðu mínútu en Artur Jedrzejczyk, liðsfélagi Ragnars Sigurðssonar hjá rússneska liðinu Krasnodar jafnaði metin á lokamínútu fyrri hálfleiksins.
Milik kom inná sem varamaður í hálfleik og kom Pólland í 2-1 á 61. mínútu leiksins. Þetta varð þó ekki sigurmarkið því Fabian Frei jafnaði metin þremur mínútum fyrir leikslok.
