Erlent

Rússar sagðir ætla að innlima austurhluta Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur hafa dregið rússneska fána að húní opinberra bygginga í þremur borgum í Úkraínu.
Mótmælendur hafa dregið rússneska fána að húní opinberra bygginga í þremur borgum í Úkraínu. Vísir/AFP
Oleksandr Turchynov, starfandi forseti Úkraínu, sakaði Rússland í dag um að ætla að taka Úkraínu í sundur. Þá benti hann á að óeirðir í þremur borgum í austurhluta landsins endurspegluðu atburðarásina sem átti sér stað á Krímskaga, áður en svæðið var innlimað af Rússlandi.

Frá þessu er sagt á vef CNN.

Mótmælendur hliðhollir Rússlandi hafa tekið yfir opinberar byggingar, draga rússneska fána að húni og líst yfir nýjum stjórnvöldum í borgunum Donetsk, Luhansk og Kharkov.

Í sjónvarpsávarpi sagði forsetinn að mótmælunum væri stýrt af leyniþjónustu Rússlands. „Við munum ekki leyfa þessu að gerast,“ sagði Turchynov.

Arseniy Yatsenyuk, forsætisráðherra, sagði markmið mótmælenda vera að koma miklum óróa á í landinu, svo erlendir hermenn gætu komið yfir landamærin og hernumið hluta Úkraínu.

Skilaboðin frá utanríkisráðuneyti Rússlands eru þau að landið fylgist náið með þróun mála í Úkraínu og stjórnvöld þar eigi að hætta að kenna Rússlandi um vandamál sín.

Bandarískir embættismenn hafa beðið Vladimir Putin, forseta Rússlands, um að sverja af sér mótmælin í Úkraínu. Þá var bent á að frekari ígrip Rússa í landinu myndu kalla fram harðari viðskiptaþvinganir en nú hefur verið beitt.

Fjölmiðlar í Rússlandi segja mótmælendur í Donetsk hafa boðað atkvæðagreiðslu þann 11. maí um hvort svæðið skuli verða hluti af Rússlandi. Óstaðfestar heimildir CNN segja að Jafnframt hafi forsprakkar mótmælanna beðið Putin um að senda hermenn á svæðið.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt CNN um ástandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×