Innlent

Vilja læra bogfimi til að líkjast bíóhetjum

Svavar Hávarðsson skrifar
Áhugi hefur snaraukist á bogfimi á meðal yngri kynslóðarinnar.
Áhugi hefur snaraukist á bogfimi á meðal yngri kynslóðarinnar. Fréttablaðið/Vilhelm
Börn og unglingar hafa hópast á bogfiminámskeið í vetur undir miklum áhrifum af kvikmynda- og teiknimyndahetjum dagsins í dag. Áhugi fullorðinna á íþróttinni hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum með tilkomu bættrar aðstöðu til bogfimiiðkunar.

Guðmundur Örn Guðjónsson, formaður Bogfimifélagsins Bogans, segir að barna- og unglingastarf félagsins standi í miklum blóma um þessar mundir, og greinilegt að kvikmyndir eins og Hunger Games og Hringadróttinssaga, auk teiknimyndarinnar Brave, hafi haft mikil áhrif þar á.

„Þetta byggir þó ekki aðeins á þessum nýju hetjum kvikmyndanna. Hetjur með boga eru ekki nýjar af nálinni og má minna á Hróa hött og jafnvel hetjur Íslendingasagnanna. Þetta hefur alltaf verið til,“ segir Guðmundur og bætir við að mikil vakning sé á meðal ungra kvenna í Bandaríkjunum eftir að hinar vinsælu myndir Hunger Games komu út.

Þrátt fyrir að áhugi á bogfimi hafi alltaf verið fyrir hendi hefur aðstaða til bogfimiiðkunar ekki verið til staðar í samræmi við áhugann. Nú er þetta gjörbreytt með tilkomu bættrar aðstöðu víða um land.

Iðkendatölur Íþróttasambands Íslands eru einn vitnisburður aukins áhuga á síðustu árum. Árið 2012 voru skráðir iðkendur tíu. Núna losar iðkendaskráin 350 manns, en tekið skal fram að skilyrði til að skrá sig í bogfimifélag er að hafa lokið sérstöku byrjendanámskeiði sem kennir undir­stöðu- og öryggisatriði er varða þessa gömlu íþrótt.

Hjá Boganum, sem hefur aðstöðu í Bogfimisetrinu í Kópavogi, eru börn og unglingar sem stunduðu æfingar í vetur rúmlega sextíu, en það segir aðeins hálfa söguna. Miklum mun fleiri koma og kynna sér bogfimi í eitt eða fleiri skipti, og segir Guðmundur þann hóp nokkur þúsund manns á öllum aldri.

Vakninguna má til dæmis sjá af því að bogfimi er nú stunduð í sex félögum á landinu að því er næst verður komist; í Reykjavík, Kópavogi, á Akureyri, Laugum, Sauðárkróki, Egilsstöðum og Eskifirði. Þá eru minni hópar ótaldir og hugmyndir að stofnun félaga annars staðar á landinu.

Í vetur fór lið frá Íslandi í fyrsta skipti og keppti á heimsmeistaramóti; reyndar á móti erlendis yfir höfuð.

„Fram undan er mót í Marokkó þar sem við ætlum að taka nokkra krakka með okkur til að leyfa þeim að spreyta sig,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×