Erlent

Einkaneysla Jong Un nemur 650 milljón dölum árlega

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kim Jong Un
Kim Jong Un VISIR/AFP
Kim Jong Il, fyrrum leiðtogi Norður-Kóreu, hafði dálæti á kínverskum melónum, úsbekskum kavíar og dönsku svínakjöti meðan hann lifði. Ríkissjóður landsins greiddi um 300 milljónir dala árlega fyrir einkaneyslu leiðtogans.

Sonur hans, Kim Jong Un, núverandi einræðisherra, eyðir líklega meiru en faðir hans ef eitthvað er að marka úttekt bandarískra yfirvalda sem birtust í síðustu viku og Time greinir frá.

Skýrsluhöfundar fullyrða það sem mannréttindasamtök hafa haldið fram til þessa; að draga ætti yfirvöld í Norður-Kóreu fyrir alþjóðlega dómstóla og láta þau svara fyrir glæpi sína gegn eigin þegnum.

Í úttektinni eru glæpirnir reifaðir á mörg hundruð blaðsíðum og myndrænar lýsingar á þjóðarmorðum, pyntingum, nauðgunum og þrældómi dregnar upp.

Í skýrslunni er einnig greint frá eyðslu Kim Jong Un en vitað er fyrir víst að hann drekkur hágæða koníak af miklum móð. Einræðisherrann og félagar hans létu byggja skíðaskála og reiðskóla ásamt því að yfirstétt landsins fjárfesti í dýrum lúxusbílum, á fjórða tug píanóa og háþróuðum hljóðupptökutækjum.

Áætlað er að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi eytt 645,8 milljónum dala í munaðarvörur árið 2012 sem yfirvöld fjármagna með ólöglegri starfsemi, til að mynda fíkniefnasölu sem skilaði yfirstéttinni um 50 milljónum dala í vasann árið 2008. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×