Erlent

Leita að kjarnorkurannsóknarstöð Hitlers

Samúel Karl Ólason skrifar
Mathausen útrýmingarbúðirnar eru nú safn.
Mathausen útrýmingarbúðirnar eru nú safn. Vísir/AFP
Leit stendur nú yfir að leynilegri rannsóknarstöð, þar sem Adolf Hitler lét vísindamenn þróa kjarnorkusprengju. Talið er að stöðin sé undir Mauthausen – Gusen útrýmingabúðunum í Austurríki og ef hún finnst myndi það varpa nýju ljósi á hve nálægt fullbúni kjarnorkusprengju nasistar voru.

Undir búðunum er net ganga og herbergja yfir ellefu hektarar að stærð, sem grafin voru af þrælum úr útrýmingarbúðunum. Fleiri en 320.000 manns létust í búðunum eða voru myrt í gasklefum. Töluverð geislun hefur fundist á svæðinu, en jarðfræðingar segja hana geta verið af náttúrulegum völdum. Fyrirtæki sem hefur í áratug dælt steypu í göngin er nú að bora þau út aftur.

Sagt er frá þessu á vef Forbes.

Rannsóknarstöðin var notuð til að framleiða hluta ME 262 flugvélarinnar, sem var fyrsta orrustuþota heimsins.

Austurríski kvikmyndagerðamaðurinn Andreas Sulzer gróf upp vísbendingar um að þarna væri að finna leynilega rannsóknarstöð. Hann hefur unnið að heimildarmynd um vísindamanninn Viktor Schauberger, sem vann við leynileg rannsóknarverkefni á vegum SS. Schauberger sagði vinnufélögum sínum frá því í bréfi, að vinna hans fæli í sér vinnu með atóm.

Andreas Sulzer segist hafa undir höndum teikningar að 20 kílómetra löngum göngum, sem byggð voru árið 1944 af 272 föngum. Einnig segist hann búa yfir upplýsingum að meðal fanga í búðunum hefði verið óeðlilega mikið af eðlis- og efnafræðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×