Erlent

Lopez handtekinn í Venesúela

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Leopoldo Lopez, einn öflugasti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, handtekinn í gær.
Leopoldo Lopez, einn öflugasti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, handtekinn í gær. Nordicphotos/AFP
Leopoldo Lopez, einn helsti leiðtogi stjórnarandstæðinga í Venesúela, gaf sig fram við lögreglu í gær og var þegar í stað færður í fangelsi. 

Hann hefur verið í felum undanvarna viku og á yfir höfði sér margvíslegar ákærur, þar á meðal fyrir hryðjuverk og morð, allt tengt átökum mótmælenda við lögreglu og her þegar upp úr sauð þar í síðustu viku.

Hörð átök brutust út í höfuðborginni Caracas í nótt eftir að Lopez hafði verið handtekinn. 

Sjálfur greip hann gjallarhorn og sagði mannfjöldanum áður en hann gaf sig fram að hann óttist ekki að þurfa að sitja í fangelsi, ef það megi verða til þess að vekja athygli á því tjóni sem fimmtán ára stjórn vinstri alræðisafla hefur valdið landinu.

Eldar loguðu á götum Caracaz í nótt.Nordicphotos/AFP
Nicolas Maduro forseti tók við af Hugo Chavez á síðasta ári, en Chavez hafði þá stjórnað landinu frá 1999.

Fjölmenn mótmæli hafa verið í borginni og víðar um land allt frá því Lopez fór í fararbroddi fjöldamótmæla í höfuðborginni þann 12. febrúar, sem beindust gegn stjórn og forseta landsins.

Í beinu framhaldi af þeim mótmælum brutust út blóðug átök sem kostuðu þrjá manns lífið.

Mannréttindasamtök hafa fordæmt hin hörðu viðbrögð stjórnvalda við mótmælunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×