Erlent

Tilfinningaþrungnir endurfundir ættingja

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fagnaðarfundir urðu þegar þær Kim Seok-Ryo frá Norður-Kóreu og Kim Song-Yun frá Suður-Kóreu hittust í dag.
Fagnaðarfundir urðu þegar þær Kim Seok-Ryo frá Norður-Kóreu og Kim Song-Yun frá Suður-Kóreu hittust í dag. Nordicphotos/AFP
Tugir aldraðra íbúa Norður- og Suður-Kóreu hittust í dag á ferðamannastað við rætur Kumgang-fjalls á landamærum ríkjanna.

Þetta urðu tilfinningaþrungnir fundir því íbúar ríkjanna hafa verið aðskildir í sex áratugi og hafa ekki fengið að hittast í meira en þrjú ár.

Þeir munu þó dvelja þarna í nokkra daga og fá tækifæri til að rifja upp minningar og segja frá því sem á dagana hefur drifið. 

Minnstu munaði að Norður-Kóreustjórn hætti við að leyfa fólkinu að hittast.

Að þessu sinni mættu um 80 manns frá Suður-Kóreu og reiknað var með um 180 manns frá Norður-Kóreu. Enginn þeirra hefur áður fengið að taka þátt í endurfundum af þessu tagi.

Þetta fólk þarf svo að kveðjast á laugardaginn, en þá mæta til leiks aðrir 360 íbúar Suður-Kóreu og 88 manns frá Norður-Kóreu þangað á sama ferðamannastaðinn, sem er á eins konar einskismannslandi á milli ríkjanna, sem lýtur sérstakri stjórn.

Áður hafa um 18 þúsund íbúar ríkjanna fengið að fara á slíka endurfundi, og um fjögur þúsund að auki hafa fengið að ræðast við í gegnum fjarskiptabúnað. Enginn þeirra hefur þó fengið að endurtaka leikinn, þannig að ólíklegt er að þeir sem hittast nú í dag fái leyfi til að hittast aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×