Enski boltinn

Manchester United ekki lengur meðal þriggja tekjuhæstu félaga í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/NordicPhotos/Getty
Manchester United er ekki lengur meðal þriggja tekjuhæstu fótboltafélaga heims en það kom í ljós þegar Deloitte gaf út tekjulistann sinn fyrir keppnistímabilið 2012-13.

Þetta er í fyrsta sinn sem United er ekki inn á topp þrjú á peningalistanum og þessar fréttir bætast nú í hóp slæmra frétta frá Old Trafford að undanförnu. United datt út úr enska deildabikarnum í gær, enska bikarnum fyrr í mánuðnum og á svo gott sem enga möguleika á því að verja enska meistaratitilinn.

Real Madrid, Barcelona og Bayern München voru þrjú tekjuhæstu félögin á síðasta tímabili en Real Madrid bætti met Manchester United með því að vera tekjuhæsta félagið í heimi níunda árið í röð.

Heildartekjur Real Madrid á tímabilinu 2012-13 voru upp á 518,9 milljónir evra eða tæpar 82 milljarðar íslenskra króna.

Manchester United er í 4. sætinu þrátt fyrir að tekjur félagsins hækkuðu úr 395,9 milljónum evra upp í 423,8 milljónir evra. United er eitt sex enskra liða inn á topp tuttugu en hin eru Manchester City (6. sæti), Chelsea (7.), Arsenal (8.), Liverpool (12.) og Tottenham Hotspur (14.).

Frönsku meistararnir í Paris Saint Germain eru komnir upp í fimmta sæti listans en tekjur félagsins næstum því fjórföldust frá árinu á undan.

Félög úr fimm stærstu deildunum eru í aðalhlutverki listans en tvö tyrknesk félög og brasilíska félagið Corinthians komust inn á topp þrjátíu.

Tekjuhæstu fótboltafélögin 2012-13:

1. Real Madrid: 518,9 milljónir evra

2. Barcelona: 482,6 milljónir evra

3. Bayern Munich: 431,2 milljónir evra

4. Man Utd: 423,8 milljónir evra

5. Paris Saint Germain; 398,8 milljónir evra

6. Manchester City: 316,2 milljónir evra

7. Chelsea: 303,4 milljónir evra

8. Arsenal: 284,3 milljónir evra

9. Juventus: 272,4 milljónir evra

10. AC Milan: 263,5 milljónir evra




Fleiri fréttir

Sjá meira


×