Innlent

Frávísunarkröfu Páls hafnað

Jakob Bjarnar skrifar
Páll Vilhálmsson í héraðsdómi í morgun. Hann segir ekki fyrir venjulegan launamann að ráða sér lögfræðing.
Páll Vilhálmsson í héraðsdómi í morgun. Hann segir ekki fyrir venjulegan launamann að ráða sér lögfræðing. gva
Páll Vilhjálmsson blaðamaður krafðist þess að meiðyrðamáli Önnu Kristínar Pálsdóttur fréttamanns á RÚV ohf á hendur sér yrði vísað frá dómi en því var hafnað nú í morgun.

„Já, þetta eru vonbrigði vegna þessa að ég taldi að það væru efni til að vísa málinu frá. En, á hinn bóginn er sjálfsagt að fá efnislega umfjöllun um þetta,“ sagði Páll í samtali við Vísi í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun. „Þetta er mjög sérstakt mál, ég man ekki til þess að fréttamaður hafi stefnt vegna gagnrýni á frétt. Þannig að það verður fróðlegt að sjá hvernig aðalmálsmeðferðin fer og hvernig úrlausn dómari veitir þá, þegar öll meginrök, með og á móti, koma fram.“

Málið höfðaði Anna Kristín eftir að Páll birti færslu á vefsvæði sínu um frétt sem hún flutti í júlí í fyrra. Þar sakar Páll Önnu Kristínu um að falsa ummæli forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins svo þau féllu betur að málstað ESB-sinna.

Páll flytur mál sitt sjálfur. „Ég leit svo á að lögin séu fyrir almenning ekki síður en lögfræðingana,“ segir Páll. Hann þekkir málið manna best og þó hann telji sig ekki geta gert sig að lögfræðingi á nokkrum vikum vill hann freista þess að verja sig sjálfur. Hann segir að það hafi verið talsverð vinna í því fólgin. „Ég veit það ekki fyrr en við úrslit málsins hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun eða röng. En, þetta hefur verið mjög áhugaverð reynsla hingað til.“

Og þá spilar kostnaðurinn að sjálfsögðu inní: „Taxti lögfræðinga er þannig að þeir greinilega vinna talsvert fyrir skilanefndir. Það sést á taxtanum. Ekki fyrir venjulegan launamann að ráða sér lögfræðing í svona mál. Enda er þetta stefna RÚV, það er lögfræðingur RÚV sem rekur þetta mál fyrir hönd fréttamannsins, og meiningin er að þagga niður gagnrýni á stofnunina.“

Aðalmeðferð málsins verður 22. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×