Fótbolti

Tíu dýrustu leikmenn sumarsins kostuðu 74 milljarða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez er dýrastur hingað til.
Luis Suárez er dýrastur hingað til. vísir/getty
Stærstu knattspyrnufélög Evrópu hafa verið dugleg að styrkja sig fyrir átökin í bestu deildum álfunnar næsta vetur, en tíu dýrustu knattspyrnumenn sumarsins kosta samtals 382,3 milljónir punda eða jafnvirði 74 milljarða króna.

Það er knattspyrnuvefurinn Goal.com sem tekur listann saman, en dýrasti leikmaður sumarsins er vitaskuld Luis Suárez sem kostaði Barcelona 70 milljónir punda eða 13 milljarða króna.

Erkifjendurnir í Real Madrid koma næstir með 63,5 milljóna punda (12,3 milljarða króna) kaup á kólumbíska ungstirninu James Rodríguez sem sló í gegn á HM í Brasilíu.

James Rodríguez með treyju númer tíu hjá Real.vísir/getty
Þriðji á listanum er varnarmaðurinn David Luiz, en franska liðið Paris Saint-Germain borgaði Chelsea 40 milljónir punda (7,8 milljarða króna) fyrir Brasilíumanninn. Eru margir farnir að efast um þau kaup eftir frammistöðu hans á HM.

Þó spænsku risarnir tveir og PSG vermi efstu þrjú sæti listans eru ensk lið í næstu sjö sætunum. Chelsea keypti tvo af dýrustu leikmönnum sumarsins, Manchester United tvo og Arsenal, Liverpool og Everton einn hvert lið.

Southampton, Chelsea og Barcelona seldu öll tvo leikmenn hvert lið af þeim sem komast á listann, en Dýrlingarnir seldu Luke Shaw og AdamLallana fyrir samtals 55 milljónir punda eða 10,7 milljarða króna.

Tíu dýrustu leikmenn sumarsins:

1. Luis Suárez - Liverpool til Barcelona - 13 milljarðar

2. James Rodríguez - Monaco til Real Madrid - 12,3 milljarðar

3. David Luiz - Chelsea til PSG - 7,8 milljarðar

4. Diego Costa - Atlético til Chelsea - 6,8 milljarðar

5. Alexis Sánchez - Barcelona til Arsenal - 6,2 milljarðar

6. Luke Shaw - Southampton til Man. Utd - 5,8 milljarðar

7. Cesc Fábregas - Barcelona til Chelsea - 5,8 milljarðar

8. Ander Herrera - Athletic til Man. Utd - 5,6 milljarðar

9. Romelu Lukaku - Chelsea til Everton - 5,4 milljarðar

10. Adam Lallana - Southampton til Liverpool - 4,9 milljarðar

David Luiz spilar í Frakklandi næstu árin.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×