Lífið

Var ellefu tíma í Herjólfi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ellefu tímar í Herjólfi.
Ellefu tímar í Herjólfi. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Fyrr í dag sagði Vísir frá Facebook-hrekk Maríönnu Evu Abelsdóttur, sem sagði frá því að vinkona sín hefði sofnað í Herjólfi og verið sjö tíma um borð.

Hrekkurinn minnir á sögu um sautján ára pilt frá Garðabæ sem var ellefu tíma í Herjólfi. Sagan er þekkt í Garðabænum og sömdu mætir menn lag um hana, sem má heyra hér að ofan.

Sagan er orðin þrettán ára gömul, en lifir enn góðu lífi og er iðulega rifjuð upp í partíum í Garðabæ. Árið 2001 fóru þrír sautján ára vinir heim af Þjóðhátíð á þriðjudagsmorgni. Herjólfur sigldi þá á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og tók ferðin á milli vel á þriðju klukkustund.

Piltarnir áttu bókaðar kojur um borð og lögðu sig á leiðinni heim. Tveir þeirra vöknuðu og ákváðu að skilja þann þriðja eftir um borð. Sá svaf alla leiðina aftur til Vestmanneyja. Hann var svo vakinn af konu sem hafði bókað sömu koju. Pilturinn sýndi henni miðann sinn, þar sem stóð að hann væri með kojuna bókaða. En konan benti honum á að þetta hafi verið í ferðinni á undan.

Vinir piltsins voru farnir heim, þegar hann kom í Þorlákshöfn í annað sinn. Og þurfti hann að fá far með ókunnugu fólki heim í Garðabæ.

Þegar upp var staðið eyddi pilturinn ellefu tímum í Herjólfi, eins og má heyra í laginu hér að ofan. Vinir piltsins sömdu lagið og hefur það ósjaldan verið sungið þegar vinirnir hittast í veislum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.