Innlent

Sandskeiði og Hellisheiði lokuð vegna stórhríðar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Búið er að loka Sandskeiði og Hellisheiði.
Búið er að loka Sandskeiði og Hellisheiði.
Sandskeiði og Hellisheiði eru nú lokuð vegna stórhríðar samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Búist er við stormi (meira en 20 m/s) á miðhálendinu í dag og einnig við suðurströndina, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu.

Hálka og snjókoma er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Hálka eða hálkublettir eru á flestum öðrum vegum á Suðurlandi. Hálka og snjókoma er á Mosfellsheiði og í Ölfusinu. Óveður er undir Eyjafjöllum.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum en snjóþekja á Heydalsvegi á nokkrum vegum í innsveitum Borgarfjarðar. Flughált er á Skógarströnd.

Hálka eða snjóþekja er víða á Vestfjörðum en flughált er milli Súðavíkur og Öguness í Ísafjarðardjúpi og einnig á Snæfjallaströnd.

Á Norðvesturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja en flughálka frá Varmahlíð og inn Blönduhlíð. Þæfingsfærð er á milli Hofsóss og Ketiláss en unnið að hreinsun.

Norðaustanlands er snjóþekja á Öxnadalsheiði og á norðausturhorninu en annars víða hálka eða hálkublettir. Flughált er á Dettifossvegi.

Á Austurlandi eru vegir á Héraði að mestu auðir en hálka á flestum  fjallvegum. Snjóþekja er í Hjaltastaðaþinghá og á Vatnsskarði eystra. Hálkublettir eru síðan mjög víða með suðausturströndinni frá Reyðarfirði og að Kirkjubæjarklaustri. Hálka og snjókoma er milli Kirkjubæjarklausturs og Mýrdalssands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×