Fótbolti

Liðsfélagi Birkis óvænt valinn í þýska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shkodran Mustafi fagnar marki með félaga sínum hjá Sampdoria.
Shkodran Mustafi fagnar marki með félaga sínum hjá Sampdoria. Vísir/Getty
Shkodran Mustafi, 21 árs gamall varnarmaður hjá ítalska félaginu Sampdoria, var valinn í landsliðshóp Þjóðverja fyrir vináttulandsleik á móti Síle á miðvikudaginn

David Moyes, núverandi knattspyrnustjóri Manchester United, hafði þó ekki trú á stráknum og leyfði honum þannig að fara frítt frá Everton árið 2012. Ensku miðlarnir voru fljótir að rifja það upp þegar fréttist af landsliðsvali Joachim Löw.

Mustafi var í herbúðum Everton frá 2009 til 2012 en hefur spilað með Sampdoria-liðinu síðan. Með Sampdoria spilar einmitt íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason sem er á leiðinni í landleik á móti Wales.

Mustafi er fæddur árið 1992 í Þýskalandi en hann er af albönskum ættum. Hann hefur spilað fyrir öll yngri landslið Þjóðverja en það vekur samt athygli að hann sé inn í myndinni hjá Joachim Löw, landsliðsþjálfara Þýskalands.

Shkodran Mustafi hefur staðið sig vel með Sampdoria og nú er bara að sjá hvort hann komist í HM-hóp Þjóðverja en framundan er heimsmeistarakeppnin í Brasilíu í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×