„Við höfum verið að ræða saman. Þetta mun bara taka tíma enda var þetta kannski niðurstaða sem fáir bjuggust við. Við verðum að bregðast við því af yfirvegun og reyna að mynda starfhæfann meirihluta sem sátt getur náðst um,“ segir Halldór Auðar Svansson oddviti Pírata í borginni.
Hann segist hafa heyrt í Degi B. Eggertssyni oddvita Samfylkingar í dag en það hafi engar formlegar viðræður átt sér stað. Hann sé einnig búinn að heyra í Sóleyju Tómasdóttur hjá Vinstri grænum. Dagur og S. Björn Blöndal oddviti Bjartrar framtíðar hafa áður lýst því yfir að þeir séu að ræða saman um meirihluta samstarf.
Þannig er útlit fyrir að meirihluti verði myndaður í borginni af fjórum flokkum; Samfylkingu, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum.
Halldór segist bjartsýnn á að geta myndað meirihluta með þessu fólki. „Við ætlum hreinlega að reyna að tala okkur saman, það liggur ekkert á. Þetta hafa verið þreifingar í dag og við erum að ná ágætlega saman. Það hefur verið góður andi í þessari kosningabaráttu,“ segir Halldór.
Hann segir engan formlegan fund hafa verið ákveðinn en hann muni hitta oddvitana í sjónvarpssal á Stöð 2 í kvöld.
Innlent