Innlent

Óveður á Kjalarnesi

Óveður er á Kjalarnesi.
Óveður er á Kjalarnesi. Vísir/GVA
Óveður er á Kjalarnesi, hálka á Hellisheiði en hálkublettir á Mosfellsheiði að því er kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hálka eða hálkublettir eru á flestum fjallvegum á Vesturlandi en vegir á láglendi eru mikið til auðir. Hálka og skafrenningur á Svínadal. Í kvöld og nótt dregur smám saman úr vindi og vindhviðum á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á vegum og sumsstaðar skafrenningur, einkum á fjallvegum.  Snjóþekja og skafrenningur er á Gemlufallsheiði og  á Steingrímsfjarðarheiði en ófært  og óveður á Þröskuldum.  Hálkublettir eru á Innstrandarvegi.

Þæfingsfærð og skafrenningur er á Þverárfjalli en hálka, éljagangur og skafrenningur frá Sauðárkrók að Siglufirði og svo áfram þaðan og inn á Akureyri. Annars eru aðalleiðir á Norðurlandi vestra greiðfærar.

Ófært og stórhríð er á Öxnadalsheiði og beðið er með mokstur til morguns. Snjóþekja og skafrenningur er á Víkurskarði. Við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum er víða snjóþekja eða hálka og éljagangur eða skafrenningur. Ófært og stórhríð er á Hólasandi.

Það er ófært og óveður á  Mývatns- og Möðrudalsöræfum og eins á Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Oddsskarði og beðið með mokstur til morguns. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Vatnsskarði eystra og á Fagradal. Snjóþekja  og  éljagangur er frá Reyðafirði með ströndinni að Höfn. Óveður er við Lómagnúp og Kvísker og sandfok í Öræfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×