Enski boltinn

Stórleikur Di María í stórsigri Man Utd | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester United vann sinn fyrsta sigur í keppnisleik undir stjórn Louis van Gaal þegar lærisveinar Harrys Redknapp voru teknir í bakaríið á Old Trafford í dag. Lokatölur urðu 4-0, United í vil.

Ángel Di María skoraði fyrsta mark leiksins með skoti beint úr aukaspyrnu á 24. mínútu og Ander Herrera bætti við marki á 36. mínútu með góðu skoti. Þetta voru fyrstu mörk beggja fyrir Manchester United.

Fyrirliðinn Wayne Rooney jók muninn í 3-0 á 44. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Juan Mata bætti svo fjórða markinu við á 58. mínútu eftir sendingu frá Di María sem var að öðrum ólöstuðum maður leiksins.

Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao kom inn á í sínum fyrsta leik fyrir Manchester United á 67. mínútu. Hann fékk gott tækifæri til að skora á 84. mínútu, en Robert Green varði skot hans af stuttu færi.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og lærisveinar van Gaals fögnuðu langþráðum sigri.

Með sigrinum komst United upp í 9. sæti deildarinnar með fimm stig eftir fjóra leiki. QPR vermir hins vegar 15. sætið með þrjú stig, en liðið hefur aðeins skorað eitt mark í leikjunum fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×